Kæru félagar,
Nú er meistaramótið á næsta leiti sem oft markar hápunkt sumarsins ár hvert. Sú sérstaka stemmning sem skapast í kring um mótið er einstök. Skráningu í mótið lýkur nú á miðvikudaginn og skora ég á alla sem sem eiga tök á, að vera með. Í meistaramótinu ganga keppendur í gegn um nánast allt sem upp getur komið á golfvellinum og taka fyrir vikið út mikinn þroska.
Í framhaldi af því þá má segja að vallarstarfsmenn eru að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að gera völlinn eins góðan og mögulegt er fyrir meistaramótið. Eins og við höfum orðið vitni að þá eiga vellir landsins heilt yfir undir högg að sækja þegar kemur að grósku, vorið kom seint og sumir halda því jafnvel fram að sumarið sé enn ekki komið á okkar hluta landsins. Við skulum alla vega leggja okkar á vogaskálarnar og ganga um völlinn eins vel og við getum, laga bolta- og torfuför, raka bönkera og passa upp á allt rusl og brotin tí, vísa sem aldrei verður of oft kveðin.
Annað sem mig langar til að biðla til ykkar um og það snýr að gönguleiðinni frá 8. holunni yfir á þá 9. Endilega notið stíginn (sjá mynd) til þess að halda góðu flæði um völlinn. Með því að skilja settið eftir fyrir neðan glompuna á 8. og ganga svo þvert yfir 5. brautina, er verið að tefja fyrir þeim sem eru að slá upphafshögg á 8. sem og á 5. braut. Endilega hafið það í huga.
Að lokum vil ég þakka félagsmönnum fyrir frábærar undirtektir varðandi staðfestingu á rástímum. Í kring um 95% félagsmanna hafa verið að skrá sig samviskusamlega og vonandi náum við til síðustu 5% hratt og örugglega. Annað sem við getum lesið út úr skráningunni, en það er hvað mikið er um það að iðkendur mæti á síðustu stundu. Við viljum hvetja félagsmenn til að mæta tímanlega fyrir skráðan rástíma.
Vona bara að við sjáumst sem flest í meistaramótinu.
Með kærri golfkveðju,
Þorsteinn Guðjónsson
Formaður