Fyrsta mót sumarsins á Eimskipsmótaröðinni fór fram á Garðavelli á Akranesi um helgina, en spilaðar voru 36 holur yfir tvo daga við ágætis aðstæður. Völlurinn var mjög góður að sögn þátttakenda en nokkuð sterkur vindur setti svip sinn á mótið, sér í lagi seinni daginn. Sex kylfingar úr Nesklúbbnum voru á meðal þátttakenda og var árangur þeirra með ágætum. Oddur Óli Jónasson stóð sig best okkar manna í karlaflokki en Karlotta Einarsdóttir var eini fulltrúi okkar í kvennaflokki. Hér að neðan má sjá árangur okkar fólks.
Karlaflokkur:
29. sæti Oddur Óli Jónasson 75 81
47. sæti Nökkvi Gunnarsson 82 79
60. sæti Gauti Grétarsson 80 85
100. sæti Kristinn Arnar Ormsson 89 97
105. sæti Guðmundur Örn Árnason 84
Kvennaflokkur:
12. sæti Karlotta Einarsdóttir 87 75
Glæsilegur hringur hjá Karlottu í dag við erfiðar aðstæður, 75 högg og 39 punktar. Það lék enginn betur en Karlotta í kvennaflokki í dag, aðeins sigurvegarinn, Guðrún Brá Björgvinsdóttir, lék á sama skori. Það er verulega ánægjulegt að sjá Karlottu keppa á meðal þeirra bestu á ný og það verður spennandi að fylgjast með henni í sumar.
Keilismenn unnu tvöfaldan sigur á Garðavelli. Eins og áður kom fram sigraði hin 17 ára Guðrún Brá Björgvinsdóttir í kvennaflokki á samtals fjórum höggum yfir pari. Í karlaflokki vann Axel Bóasson yfirburðarsigur en hann lék hringina tvo á samtals sjö höggum undir pari.