Hola í höggi í fimmtudagsmótinu í gær

Nesklúbburinn Almennt

Fyrsta fimmtudagsmót sumarsins fór fram í blíðskaparveðri á Nesvellinum í gær.  Mótið sem var innanfélagsmót átti í raun að vera það þriðja og síðasta í röðinni en var eins og áður sagði það fyrsta þar sem að hinum tveimur var frestað þar til síðar í sumar vegna veðurs.  Ágætis mæting var í mótið en 38 kylfingar voru skráðir til leiks.  Einungis 29 skiluðu þó skorkorti og er það mjög miður þar sem að það kemur niður á heildarútreikningi mótsins.  Mjög gott skor leit dagsins ljós enda buðu aðstæður svo sannarlega til góðra afreka.  Afrek dagsins átti þó unglingurinn Sigurður Örn Einarsson en hann náði draumahögginu á 5. holu.  Sigurður notaði 7. járn við höggið og að eigin sögn skoppaði kúlan tvisvar áður en hún hvarf þeim sjónum.  Sigurður lék með föður sínum, Einari Magnúsi Ólafssyn í mótinu og þar sem að skyggnið var þannig sökum sólar að þeir voru ekki vissir um hvort kúlan væri í holunni eða ekki, tók Sigurður upp fjarlægðarkíki til þess að vera viss.  Þegar engin kúla sást í kíkinum var hlaupið í átt að holunni þar sem kúlan var og upphófust að sjálfsögðu mikil fagnaðarlæti.  Nesklúbburinn óskar Sigurði innilega til hamingju með frábært afrek.  Þess má geta að þetta var aðeins í sjötta skiptið sem farið hefur verið holu í höggi á fimmtu holu.  Helstu úrslit í mótinu urðu annars eftirfarandi:

Punktakeppni:

1. sæti – Valur Kristjánsson – 41 punktur

2. sæti – Óskar Dagur Hauksson – 40 punktar

3. sæti – Hinrik Þráinsson – 40 punktar

Besta Skor:

Ólafur Björn Loftsson – 66 högg