Komið að úrslitum í Ecco bikarkeppnunum

Nesklúbburinn Almennt

Í kvöld kláraðist síðari undanúrslitaleikurinn í ECCO bikarkeppninni.  Það voru þær Karlotta Einarsdóttir og Áslaug Einarsdóttir sem öttu kappi sem endaði með því að Karlotta sigraði 2/1.  Fyrir hafði Helga Kristín Einarsdóttir sigrað Ólaf Hauk Magnússon 3/1 og þar með tryggt sér sæti úrslitum.  Þess má geta í framhjáhlaupi að þær Karlotta, Áslaug og Helga eru ekki tengdar fjölskylduböndum þrátt fyrir að vera allar Einarsdætur.

Það verður því barátta tveggja kvenna í fyrsta skipti frá upphafi í keppninni um bikarmeistaratitil Nesklúbbsins og mun leikur þeirra fara fram á morgun, þriðjudag kl. 13.00.

Í keppninni um Klúbbmeistaratitilinn í holukeppninni er einnig komið að úrslitum.  Í fyrri undanúrslitaviðureigninni sigraði Nökkvi Gunnarsson bróður sinn Stein Baug Gunnarsson í undanúrslitum 2/1.  Í hinum undanúrslitaleiknum beið Karlotta Einarsdóttir lægri hlut fyrir Hauki Óskarssyni í æsispennandi viðureign 0/1.  Það verða því þeir Nökkvi og Haukur sem munu leika til úrslita á föstudaginn næstkomandi kl. 10.00.