Kynningar frambjóðenda til stjórnar á aðalfundi NK 2023

Nesklúbburinn Almennt, Póstlistar allir

Aðalfundur klúbbsins verður haldinn á morgun, þriðjudag kl. 19.30 í hátíðarsal Gróttu á Austurströnd.  Á fundinum verður samkvæmt lögum félagsins kosið til stjórnar.  Eins og áður hefur komið fram bárust kjörnefnd fundarins samtals 6 framboð, þ.a. eitt til formanns og fimm til stjórnar. Frambjóðendum gafst kostur á því að kynna sig hér á heimasíðu klúbbsins fyrir fundinn og má sjá þær kynningar hér neðar.

Til formanns: Þorsteinn Guðjónsson

Til stjórnar í stafrófsröð:

  • Ásgeir Bjarnason
  • Bjartur Logi Finnsson
  • Elsa Nielsen
  • Guðmundur Júlíus Gíslason
  • Guðrún Valdimarsdóttir

Kynningar frá frambjóðendum eru eftirfarandi.

ÁSGEIR BJARNASON

Hæ kæru félagsmenn, ég er Ásgeir.

Ég sækist eftir áframhaldandi setu í stjórn golfklúbbs Ness. Ég hef setið í stjórninni síðastliðin tvö ár og verið formaður vallarnefndar á þessum tíma. Ég hef mikin áhuga á klúbbnum og hef verið virkur meðlimur í mörg ár. Tvö ár er stuttur tími og það er óhætt að segja að það er ekki fyrr en núna sem ég er að verða nægjanlega reyndur til að geta tekist á við þau verkefni sem upp koma.

Bara það að ræða stefnumótun um tækja mál eða skipuleggja hreinsunardag, eða skipuleggja og kostnaðargreina framkvæmdir á vellinum og gera framkvæmdaáætlun er eitthvað sem ég var kannski ekkert sérstaklega góður í þegar ég byrjaði fyrir 2 árum en núna þegar ég hef náð að setja mig inn í þessi mál þá er ég fullur eldmóði að halda því áfram.  Ég hef lagt mig fram við að hlusta á félagsmenn, þeirra hugmyndir um betrumbætur á vellinum.  Nú nú nýverið samþykkti þá tillögu mína fyrir hönd vallarnefndar að settar yrðu upp tröppur á nokkra teiga, salerni út á golfvöllinn og lagfæringar á tveimur glompum við 8. og 9. braut.  Allt eru þetta verkefni sem verða framkvæmd í vetur því ég vil koma hlutum í farveg eins fljótt og auðið er þegar þau hafa verið samþykkt af stjórn.

Helstu áherslur mínar eru:
* Besti 9 holu völlur á landinu með tilliti til öryggis, skemmtanagildi og umhirðu.
* Besti félagsandinn,  hvort sem er á pallinum, í mótum eða bara þegar við erum að spila á vellinum okkar.
* Góð æfingaraðstaða bæði á sumrin og veturnar.
* Öflugt starf fyrir alla aldurshópa.
* Hlúa að grasrótinni, þ.e. yngstu kylfingunum

Golf er lýðheilsa og flestir kylfingar eru yfir 50 ára. Ég vil áfram stuðla að því að við í okkar klúbbi verðum í framvarðasveit þeirra sem gera kylfingum kleift að stunda golf fram eftir aldri og ráðast í framkvæmdir á 6 holu par 3 velli til að bæta aðstöðu okkar fyrir alla okkar félagsmenn og þá sérstaklega fyrir byrjendur, eldriborgara og krakka.

Ég óska því eftir þínu atkvæði til áframhaldandi á aðalfundi Nesklúbbsins

Takk fyrir,
Ásgeir

 

BJARTUR LOGI FINNSSON

Kæru Nesklúbbsfélagar

Bjartur Logi Finnsson heiti ég og gef kost á mér til setu í stjórn Nesklúbbsins til næstu tveggja ára. Ég hef verið kylfingur í 35 ár þar af rúmlega 20 ár verið meðlimur í Nesklúbbnum. Áður var ég meðlimur í Golfklúbbi Hornafjarðar þar sem ég ólst upp en ég og fjölskylda mín höfum búið á Seltjarnarnesi síðan árið 1995. Ég brenn fyrir áframhaldandi uppbyggingu Nesklúbbsins og hlakka mikið til að sjá, fá að njóta og taka þátt í þeim breytingum sem stefnt er að á vellinum okkar og eru komnar í ákveðið ferli. Sjálfur er ég meistaraflokkskylfingur en golfið er ekki allt fyrir mér í dag, það sem ég sækist orðið meir og meir eftir er sá góði félagsskapur sem því fylgir að vera meðlimur í  Nesklúbbnum svo er það útiveran og sú mikla nálægð við náttúruna sem völlurinn okkar bíður uppá, og með því að vera meðlimur í NK næ ég að sameina þetta tvennt.  Ég er á því að stjórn klúbbs eins og Nesklúbbsins eigi að endurspegla þverskurð félagsmanna. Þ.e.a.s. kynjahlutfall sé haft í hávegum og einnig sé gott að sem flestir hópar eigi sinn málsvara innan stjórnar, byrjendur, afrekskylfingar og hinn almenni félagi. Ég tel mig hafa margt fram að færa fyrir klúbbinn hef mikla reynslu á að vinna með fólki þar sem ég hef unnið við tónlist í yfir 30 ár og verið sölustjóri á stóreldhússviði Haga en í báðum störfum umgengst ég mikið fólki sem nærir sálina. Svo er það eins og áður sagði nálægðin við náttúruna, fyrir mig sem er alinn upp úti á landi að hafa gott aðgengi að náttúrunni er ómetanlegt og þurfum við að halda áfram að framkvæma á vellinum okkar og vinna að því að hvorki líf né náttúra spillist.

Hlýjar kveðjur
Bjartur Logi Finnsson

 

ELSA NIELSEN

Elsa Nielsen heiti ég og er grafískur hönnuður og starfa sem hönnunarstjóri á Kontor auglýsingastofu.

Ég er margfaldur íslandsmeistari í badminton og fór fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikana í Barcelona 1992 og Atlanta 1996. Ég er alls ekki hætt að spila mér til gamans og fyrir tveimur árum varð ég heimsmeistari í tvíliðaleik kvenna +40 ára. Golfið er hinsvegar mín nýja íþrótt og við fjölskyldan spilum öll af kappi. Börnin mín þrjú spila öll golf og er sú yngsta að æfa hjá Nesklúbbnum.

Síðastliðin tvö ár hef ég setið í stjórn Nesklúbbsins og er varaformaður klúbbsins. Þessi tvö ár hafa verið ákaflega gefandi þar sem ég hef unnið ötullega að starfi klúbbsins með öflugi teymi stjórnar og starfsfólks. Ég er virk í Kvennanefnd klúbbsins sem hefur verið mjög gefandi og skemmtilegt. Það er alltaf gaman að vinna fyrir konurnar okkar sem kunna svo vel að meta. Nesklúbburinn er svo sannarlega að vaxa og dafna. Mikið hefur áunnist í að efla barna og unglingastarf klúbbsins sem ég er mjög stolt af og ég er líka stolt af því að tilheyra samheldnum og flottum klúbbi!

Ég sit einnig í framkvæmdastjórn ÍSÍ (Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands). Fyrir hönd framkvæmdastjórnar sit ég í Afreksráði ÍSÍ, Upplýsingatækninefnd ÍSÍ og er varaformaður Upplýsinga- og fjölmiðlanefnd ÍSÍ. Ég hef verið í stjórn Samtaka Íslenskra Ólympíufara, og sit núna í afreksnefnd Badmintonsamband Íslands.

Í gegnum tíðina hef ég kynnst öllum hliðum íþróttastarfs sem iðkandi, sem afrekskona, sem stjórnarmaður og síðast en ekki síst sem golf- og fótboltamamma. Þessa reynslu mun ég nýta til þess að efla starfið í Nesklúbbnum enn frekar. Ég byrjaði í golfi fyrir 10 árum og þar sem ég er mikil keppniskona spila ég núna í meistaraflokk þannig að mér finnst ég þekkja allar hliðar golfsins vel.

Ég er kraftmikil, hugmyndarík og ég veit hvað þarf til að ná árangri. Það væri mikill heiður að fá að sitja áfram í stjórn Nesklúbbsins og leggja mitt að mörkum, sérstaklega nú þegar stórafmæli klúbbsins okkar er framundan.

Ég óska því eftir áframhaldandi stuðningi ykkar til stjórnarsetu í Nesklúbbnum.
Takk fyrir 🙂
Elsa Nielsen

 

GUÐMUNDUR JÚLÍUS GÍSLASON

Guðmundur heiti ég og býð mig fram í stjórn Nesklúbbsins á komandi aðalfundi en ég hef brennandi áhuga á golfi sem hefur bara aukist í takt við verulega aukna spilamennsku.   Ég fór að venja komu mína í Nesklúbbinn fyrir hartnær 30 árum síðan og hef því fylgst með öllu því góða starfi allan þann tíma.  Í fyrra ákvað ég að fara í PGA Golfkennaranámið og dýpka þekkingu mína enn meira og tel mig hafa nú þegar margt fram að færa sem gæti eflt okkar góða golfklúbb.

Áherslur mínar eru margþættar.  Ég myndi vilja efla starfið fyrir öldunga, en það góða fólk hefur stutt verulega við okkar klúbb í gegnum fjöldamörg ár. Golfiðkun og sá félagsskapur sem hún veitir eldra fólki er einstakt.  Sem dæmi mætti setja á laggirnar púttmót, mót eldri borgara yfir sumartímann og fleira.  Sama á við um okkur karlmenn í klúbbnum en konurnar eru með sína þriðjudagsmótaröð ásamt fleiru sem mikill sómi er að.  Það væri gaman að sjá okkur karlmenn flykkjast oftar saman á völlinn og keppa okkar á milli.  Eitt stykki kótilettukvöld eða „KK Open“ yfir sumartímann svo eitthvað sé nefnt.  Tala nú ekki um hið margrómaða Herrakvöld yfir vetrartímann.

Einnig brenn ég fyrir afreksstarfi barna en mikil fjölgun hefur átt sér í þátttöku barna í golfi.  Ég myndi vilja einblína enn frekar á það hvernig mætti styðja við það unga afreksfólk sem hefur valið sér þessa íþróttagrein og á framtíðina fyrir sér í þessari íþrótt.  Hvernig getum við séð til þess að þessir krakkar haldi áfram að blómstra og fái vettvang sem hentar þeirra getu og styrk.

Við fjölskyldan teljum okkur vera hluti af enn stærri fjölskyldu sem Nesklúbburinn er og höfum verið miklir þátttakendur í því góða starfi í fjöldamörg ár.  Ég starfa sem Flugstjóri hjá Icelandair en hef svo yfir sumartímann flutt lögheimili af Lindabraut og út á golfvöll 😊

Ég tel mig hafa mikið fram að færa, hef metnað til að efla starf Nesklúbbsins enn frekar, huga að uppbyggingu fyrir unga sem aldraða, og gera gott starf enn betra og halda áfram að vinna að þeim fjölmörgu og mikilvægu verkefnum sem að bíða Nesklúbbsins, bæði innan vallar sem utan.

Ég væri því afar þakklátur fyrir að fá ykkar stuðning í stjórn Nesklúbbsins.

Kær Kveðja,
Guðmundur Júlíus Gíslason
PGA Golfkennaranemi og lífskúnstner

 

GUÐRÚN VALDIMARSDÓTTIR

Kæru félagar í Nesklúbbnum,

Ég heiti Guðrún Valdimarssdóttir og hef verið félagi í Nesklúbbnum frá því að byrjaði í golfi fyrir u.þ.b. 18 árum. Ég hef ávallt haft gaman að félagsstörfum og hef gengt töluvert af þeim í gegnum tíðina. Þegar til mín var leitað að koma í stjórn Nesklúbbsins á sínum tíma þurfti ég ekki að hugsa mig tvisvar um. Ég hafði áður setið í kvennanefnd Nesklúbbsins í fjögur ár þar sem ég tók þátt í að byggja upp og móta það góða starf sem þar er enn unnið í dag.

Ég hef setið í stjórn klúbbsins í nokkur ár og undanfarin fjögur ár sem gjaldkeri klúbbsins. Ég er viðskiptafræðingur með mastersgráðu í stjórnun fyrirtækja (MBA) og mastergráðu í Fjármálum fyrirtækja. Ég hef víðtaka reynslu af fjármálum og rekstri fyrirtækja.  Ég hef í samstarfi við framkvæmdastjóra og endurskoðendur klúbbsins borið ábyrgð á fjármálum klúbbsins og í minni tíð sem gjaldkeri hefur félagið ávallt verið rekið réttu megin við núllið. Ég hef lagt áherslu á að félagsgjöldum sé stillt í hóf og í samræmi við rekstur klúbbsins hverju sinni.  Nesklúbburinn er fyrst og fremst félagasamtök sem að mínu viti á ekki að stefna að því að eiga djúpa sjóði, heldur að geta umfram allt rekið sig frá ári til árs og innheimt sanngjörn félagsgjöld sem tryggja góðan rekstur klúbbsins og veitingasölunnar. Ég er stolt af því að í dag eru þau langt undir félagsgjöldum annarra sambærrilegra klúbba á höfuðborgarsvæðinu.

Mér finnst mikilvægt að konur hafi rödd í stjórn klúbbsins og að kynjahlutfallið í stjórninni sé sem jafnast. Því miður eru konur tregari en karlar við að bjóða sig fram.

Kæru félagsmenn, það hefur verið mér heiður að fá að starfa í ykkar þágu í stjórn Nesklúbbsins. Framundan eru bjartir og um leið afar krefjandi  tímar í sögu klúubbsins þar sem liggur fyrir gríðarlega kostnaðarsamar framkvæmdir ef fram fer sem horfir. Ég er tilbúin í þá áskorun, og að sjá til þess að farið sé vel með fjármuni klúbbsins á þessum tímum. Ég hef því ákveðið að gefa kost á mér áfram í stjórn klúbbsins þar sem ég mun vinna að heilindum og alúð, nú sem endranær. Ég óska því eftir þínu atkvæði í framboði mínu til stjórnar Nesklúbbsins á aðalfundi félagsins 2023.

Með vinsemd og virðingu,
Guðrún Valdimarsdóttir