Lómur er orpinn við Daltjörn

Nesklúbburinn Almennt, Póstlistar allir

Eins og allir vita er fuglalíf afar blómlegt á og við Nesvöllinn.  Margæsin sem heimsækir okkur á leið sinni frá Írlandi til Kanada kom óvenju snemma þetta árið, eða fyrir miðjan apríl.  Það verður fróðlegt að sjá hvort það muni hafa áhrif á brottfarartíma hennar sem er öllu jafna 25.-27. maí.  Krían, okkar aðalsmerki, kom í síðustu viku og fer nú að undirbúa varp sitt víðsvegar á vellinum.  Margar aðrar fuglategundir, sbr. Tjaldur, gæs, nokkrar andategundir og fleiri fuglategundir eru árlegir gestir sem við bjóðum ávallt velkomna.  Um helgina tók svo athugull félagsmaður eftir því að Lómur er orpinn á smá þúfu við Daltjörn (tjörnin við 3. brautina) og bjóðum við hann hjartanlega velkominn í fuglaflóruna okkar þetta árið.  Mikilvægt er að hreiðrið fari ekki á kaf og en engu að síður verður að vera mátulegt vatn til að Lómurinn geti skriðið niður í það þar sem hann getur ekki gengið.

Við minnum félagsmenn á að ganga varlega um allt fuglavarp, taka tillit til þeirra staðarreglna sem settar eru til þess að verja varp fuglanna og láta vita ef þeir verða varir við hreiður á vellinum sem ekki er merkt, því við setjum skilti við hvert hreiður til að verja það frá golfboltunum.  Félagsmönnum er skilt að ganga um allt fuglavarp með virðingu og má því til staðfestingar minna á það að ef bolti lendir í hreiðri eða hreiður truflar kylfing á einn eða annan hátt má droppa frá því.

Hjálögð mynd: Eggert Eggertsson

Vallarnefnd