Nökkvi leitar á ný mið og Guðmundur Örn og Magnús Máni taka við golfkennslunni hjá Nesklúbbnum

Nesklúbburinn Almennt, Póstlistar allir

Nökkvi Gunnarsson hefur ákveðið að leita á ný mið í golfkennslunni eftir 15 farsæl ár sem yfirgolfkennari Nesklúbbsins. Nökkvi mun láta af störfum í lok mánaðar og hefja störf hjá Prósjoppunni þar sem hann mun starfa við golfkennslu og kylfumælingar.

Nesklúbburinn er afar þakklátur Nökkva fyrir hans mikilvæga framlag í starfi Nesklúbbsins á undanförnum árum og mun Nökkvi að sjálfsögðu halda áfram að vera virkur meðlimur NK og leggja klúbbnum lið en Nökkvi verður til að mynda áfram í vallarnefnd klúbbsins.

Nökkvi hefur haft góð áhrif á marga af sínum nemendum og er klúbburinn stoltur að segja frá því að heimamennirnir og nemendur Nökkva til margra ára þeir Guðmundur Örn Árnason og Magnús Máni Kjærnested munu taka við sem golfkennarar Nesklúbbsins frá og með 1. febrúar. Guðmundur Örn og Magnús Máni eru báðir nemendur við golfkennaraskóla PGA og munu ljúka PGA réttindum á næstu árum. Guðmundur og Magnús hafa báðir talsverða reynslu af þjálfun og golfkennslu og hafa báðir þjálfað í barna- og unglingastarfi klúbbsins síðustu ár og munu halda því starfi áfram samhliða golfkennslu fyrir almenna iðkendur Nesklúbbsins.

Þá mun Guðmundur Örn einnig taka við starfi Nökkva sem yfirmanns Nesvalla, inniaðstöðu Nesklúbbsins en Nökkvi hefur sinnt því starfi síðan framkvæmdir hófust fyrir rúmu ári síðan.

Meðfylgjandi mynd er af Guðmundi og Magnúsi ásamt Þorsteini Guðjónssyni formanni NK og Steini. B. Gunnarssyni íþróttastjóra NK við undirskrift samninga.