Ólafur Björn og Eggert valdir í Landslið

Nesklúbburinn Almennt

Golfsamband Íslands og Landssamband eldri kylfinga tillkynntu í dag hvaða kylfingar myndu spila fyrir Íslands hönd í verkefnum þeirra í sumar og haust.  Nesklúbburinn á þar tvo kylfinga sem verður að teljast ansi vel af sér vikið.  Ólafur Björn Loftsson, sem verið hefur fastamaður í landsliði Íslands undanfarin ár, fer á Evrópumót karlaliða sem haldið verður í Portúgal í byrjun júlí og svo aftur á Evrópumót einstaklinga sem haldið verður í Svíþjóð í byrjun ágúst.  Er Ólafur aðeins annar tveggja kylfinga sem valdir voru til þess að fara á bæði mótin.  Eggert Eggertsson spilaði sig inn í landsliðið skipað kylfingum 55 ára og eldri með forgjöf sem tekur þátt í Evrópumótinu sem haldið verður í Bratislava í Slóvakíu um miðjan ágúst.  Er þetta fyrsta árið sem Eggert hefur átt kost á því að leika á mótaröð eldri kylfinga.  Nesklúbburinn óskar þeim báðum til hamingju og óskar þeim velfarnaðar í þessum verkefnum.