Opna Coca-Cola 50 ára

Nesklúbburinn Almennt

Á sunnudaginn fer fram opna COCA-COLA mótið á Nesvellinum.  Mótið á stórafmæli í ár en það var fyrst haldið árið 1961 og er því 50 ára.  Er þetta fyrsta og jafnframt elsta opna golfmót landsins.  Fyrstu árin var það haldið á golfvellinum í Öskjuhlíð en er hann var lagður niður var það flutt í Grafarholt og síðar á Nesvöllinn þar sem það hefur verið haldið undanfarna áratugi.  Þetta mót braut blað í golfsögu landsins því áður höfðu kylfingar úr hinum ýmsu klúbbum ekkert tækifæri til að keppa innbyrðis að landsmóti undanskyldu.  Skömmu síðar var einnig efnt til Coca-Cola keppni hjá hinum tveimur klúbbunum sem þá störfuðu, Golfklúbbi Akureyrar og Golfklúbbi Vestmannaeyja.  Mótið hefur í alla tíð haldið sínu leikfyrirkomulagi og er mótið eitt af fáum í Íslensku mótaskránni þar sem ennþá er keppt er í höggleik með og án forgjafar.  Til gamans má geta að ýmislegt var gert til þess að gera mótið sem skemmtilegast á sínum tíma.  Til að mynda var á meðan mótinu stóð stórum vörubíl (merktur Coca-Cola að sjálfsögðu) lagt til hliðar við gömlu þriðju brautina sem var par 3 hola en heyrir nú undir æfingasvæði.  Einnig voru í boði 200 kassar af kók í flösku fyrir þann kylfing sem fyrstur færi holu í höggi á gömlu 6. brautinni en hún var einnig par 3 og er líka notuð til æfinga í dag.  Eftir bestu vitund var því miður var enginn svo heppinn að ná draumahögginu.  Mótið í ár verður einnig hið glæsilegasta og engu til sparað á þessu stórafmæli mótsins.  Skráning hófst síðastliðinn föstudag á golf.is og fylltist mótið á svipstundu en hægt er að skrá sig á biðlista á skrifstofu klúbbsins.