Opna Coca-Cola — úrslit

Nesklúbburinn

Opna Coca-cola mótið, elsta opna golfmót á landinu fór fram á Nesvellinum sunnudaginn 16. ágúst síðastliðinn.  Full var í skráninguna fyrir mótið og þrátt fyrir að það hafi verið nokkuð vindasamt og blautt á meðan mótinu stóð var lítið um afföll.  Eins og alltaf er eingöngu leikinn höggleikur í þessu móti og voru veitt verðlaun fyrir þrjú efstu sætin bæði með og án forgjafar ásamt nándarverðlaunum.  Í höggleik án forgjafar voru fjórir kylfingar efstir og jafnir á 72 höggum.  Það voru þeir Siggeir Vilhjálmsson GSE, Helgi Runólfsson GSE, Sigurjón Arnarson GR og Rúnar Geir Gunnarsson NK sem þurftu því að fara í bráðabana til að skera úr um úrslit í mótinu.  Svo fór að á fyrstu holu fengu þeir Helgi, Rúnar og Sigurjón fugl á meðan Siggeir fékk par og var hann því úr leik.  Á sjöundu holu fengu allir par en á áttundu holu dró til tíðinda þar sem að Helgi fékk fugl á meðan Rúnar og Sigurjón fengu par og Helgi því sigurvegari mótsins.  Á níundu holu tryggði Rúnar Geir sér svo annað sæti með pari á meðan Sigurjón fékk skolla.
Í höggleik með forgjöf sigraði Lárus Gunnarsson úr NK, en hann átti betri seinni níu en þeir Árni Guðmundsson og Sævar Egilsson, báðir úr NK en þeir léku allir á 68 höggum nettó.  Helstu úrslit í mótinu urðu annars eftirfarandi:

Höggleikur án forgjafar:

1. sæti: Helgi Runólfsson, GSE – 72 högg
2. sæti: Rúnar Geir Gunnarsson, NK – 72 högg
3. sæti: Sigurjón Arnarson, GR – 72 högg

Höggleikur með forgjöf:

1. sæti: Lárus Gunnarsson, NK – 68 högg
2. sæti: Árni Guðmundsson, NK – 68 högg
3. sæti: Sævar Egilsson, NK – 68 högg

Nándarverðlaun:

2./11. braut: Gísli Guðni Hall, 1.23 metra frá holu
5./14. braut: Einar Magnús Ólafsson, 1,76 metra frá holu