Spánarfarar komnir heim

Nesklúbburinn Almennt

Föngulegur hópur kylfinga úr Nesklúbbnum hélt utan til æfinga laugardaginn 31. mars. Hópurinn taldi alls 31 kylfing, unglinga, foreldra og aðra.

Förinni var heitið til Alicante nánar tiltekið til Osais Plantio á vegum Sumarferða.

Æft var af krafti flesta morgna og svo spilað fram í myrkur flesta daga. Allar aðstæður og veðurfar var eins og best verður á kosið þótt hlýr vindurinn hafi á köflum verið nokkuð sterkur.

Óhætt er að segja að ferðin hafi heppnast eins og best verður á kosið og eiga allir sem að komu með einum eða öðrum hætti hrós skilið.

Er það mat undirritaðs að unglingarnir sem foreldrarnir hafi verið sjálfum sér og klúbbnum til mikils sóma innan sem utan vallar. Margir góðir hringir litu dagsins ljós og eigum við í Nesklúbbnum orðið marga stórefnilega kylfinga sem eru til alls líkleg í náinni framtíð.

Það er gaman að segja frá því að þjálfarinn er virkilega stoltur af hópnum sem heild og gaman að fá að vera hluti af hópnum.