Stjórnarfréttir

Nesklúbburinn

Stjórnarfréttir í janúar 2014

Ný stjórn NK kom saman til fyrsta fundar þriðjudaginn 7. janúar og byrjaði eins og tilheyrir að skipta með sér verkum. Breytingar frá fyrra ári eru að Oddur Óli Jónasson tók við sem ritari af Þorvaldi Jónssyni, sem gengt hefur því embætti um margra ára skeið og Þuríður Halldórsdóttir tók sæti varamanns sem Jónas Hjartarson skipaði áður. Þorvaldi, sem er starfandi lögfræðingur, eru sérstaklega þökkuð góð og vandasöm störf fyrir stjórn klúbbsins. Ennfremur eru Jónasi færðar bestu þakkir fyrir stjórnarsetuna.

Stjórnin vonast til að njóta krafta þeirra beggja um ókomin ár en Þorvaldur er eins og allir vita með æðstu dómararéttindi í klúbbnum og Jónas hefur stýrt keppnissveitum NK um árabil.

Framundan eru nokkur brýn verkefni, lang stærst þeirra eru 50 ára afmælishald og áframhaldandi samstarf við bæjaryfirvöld vegna skipulagsmála Vestursvæðisins.

Ákveðið er að á stofndeginum sjálfum, þann 4. apríl verði haldin formleg móttaka þar sem áhersla verði lögð á að minnast Péturs heitins Björnssonar. Afmælinu verður síðan fagnað með fjölbreyttum hætti og mörgum viðburðum allt starfsárið sem allir félagar munu eiga kost á að taka þátt í.

Fjáröflun er meðal þess sem afmælisárið gefur tilefni til. Margar góðar hugmyndir hafa þegar komið fram en skorað er á alla félagsmenn að leggja höfuðið í bleyti og hrista fram enn fleiri og öflugri hugmyndir. Ekki mun skorta tækifæri til þess að nýta vel það fé sem aflast til þess að bæta og fegra aðstöðu og umhverfi á vellinum!

Margir félagar höfðu samband við stjórn og framkvæmdastjóra vegna skrifa Birgis R. Jónssonar í jólablaði Nesfrétta. Formaður tók að sér að svara greininni. Ljóst er að þótt víða hafi verið reynt að koma skoðunum kylfinga í Nesklúbbnum á framfæri sýnir málflutningur eins og sá sem Birgir notar að betur má ef duga skal. Er eins og áður skorað á félaga að tala máli golfsins á yfirvegaðan og hófstilltan hátt.

Að lokum skal minnt  á að innan fárra vikna mun félögum berast í tölvupósti könnun sem unnin er á vegum Kaupmannahafnarháskóla um viðhorf okkar til þess að njóta útivistar í sátt og samlyndi með öðru útivistarfólki. Skorað er á alla félaga að ganga úr skugga um að Haukur hafi rétt netfang til þess að senda könnunina á.