Styrktarmót fyrir Nökkva og Óla Lofts

Nesklúbburinn

Nýverið samþykkti stjórn Nesklúbbsins að halda styrktarmót fyrir kylfingana Nökkva Gunnarsson og Ólaf Björn Loftsson en þeir halda báðir til keppni út fyrir landssteinana í haust. 

STYRKTARMÓT NÖKKVA, FIMMTUDAGINN 28. JÚNÍ

Nökkvi fer í októbermánuði til Florida fylkis í Bandaríkjunum.  Þar mun hann leika á NGA mótaröðinni sem er þriðja stærsta mótaröðin í Ameríku.  Nökkvi hefur hug á að leika þar á sjö mótum og mun það ráðast  fyrst og fremst af fjárhagsstöðunni hversu mörgum mótum hann mun leika í.  Þá mun hann einnig leika í mótum á OGA mótaröðinni í Florida en þar náði Nökkvi einmitt til sælla minninga að sigra eitt mót síðastliðinn vetur.

STYRKTARMÓT ÓLAFS B. LOFTSSONAR, SUNNUDAGINN 22. JÚLÍ

Leynt og ljóst hafa draumar Ólafs Björns Loftssonar undanfarin ár legið í átt að atvinnumennsku.  Eftir farsælan áhugamannaferil bæði á námsárum sínum í Bandaríkjunum sem og hér heima þar sem hann varð m.a. Íslandsmeistari í höggleik árið 2009, hefur Ólafur ákveðið að stíga næsta skref og gerast atvinnumaður í golfi á þessu ári.  Stefnan er sett á úrtökumótin fyrir evrópsku og/eða bandarísku mótaröðina í haust og miðast æfingar Ólafs og áætlanir við það að vera sem best undirbúinn þegar þau mót hefjast.

Bæði styrktarmótin munu hefjast klukkan 08.00 og standa fram eftir degi.  Leiknar verða 9 holur eftir punktafyrirkomulagi.  Völlurinn verður ekki lokaður á meðan að mótunum stendur en fólk er að sjálfsögðu hvatt til þess að styrkja tvo af okkar fremstu kylfingum fyrir átök vetrarins.

Mótin verða bæði auglýst nánar þegar nær dregur