Svona lækkum við skorið um 5 högg á hring

Nesklúbburinn Almennt

 

Framfarir hjá hinum almenna kylfingi gerast ekki högg fyrir högg. Þær koma í stökkum.

Kylfingar sem leika á 95 höggum að jafnaði sjá skorið sitt ekki lækka hægt og rólega í 94, 93, 92, og svo framvegis eftir að hafa farið í kennslu eða stundað æfingar. Það sama á við um kylfinginn sem leikur á 87 höggum að jafnaði, skorið hans lækkar ekki hægt og rólega í 86, 85, 84, og svo framvegis.

Öllu heldur verður 95 allt í einu að 90 og 87 verður allt í einu að 81.

Að sama skapi getur 80 allt í einu orðið  að 75 eða 76. Þegar kylfingur nær því að leika að jafnaði á 75 höggum eða þar um bil þá flokkast hann ekki lengur sem almennur kylfingur. Þá má segja að kylfingur sé kominn á afreksstig og þar gerast hlutirnir hægar.

Þó er það svo að sumir 75´arar geta lent á minni stökkpalli og náð sér niður á parið eftir nokkra vikna æfingar.

Það geta verið margar ástæður fyrir því afhverju 95 verður 90 en ekki 94, 93 og svo áfram. Kannski lærði viðkomandi að laga hjá sér slæsið. 87 verður kannski að 81 vegna þess að viðkomandi náði að bæta hjá sér högglengdina af teig um 20 metra og á þá auðveldara með að hitta fleiri flatir í réttum höggafjölda.

Það er samt hinsvegar þannig að 75 höggin verða að 72 með því að leggja rækt við og bæta stutta spilið. Nema að því hafi verið þannig farið í upphafi að frábært stutta spil hafi orðið til þess að hann náði að leika á 75.

STUTTA SPILIÐ – það eru töfraorðin.

Þeim mun hærra sem þú skorar þeim mun hraðar getur þú lækkað skorið eingöngu með því að bæta stutta spilið.

Það vita það allir sem spila mikið golf að sennilega er meira en helmingurinn af höggunum á hverjum hring slegin af innan við 50 metra færi.

Samt er það þannig að þegar hinn almenni kylfingur stundar æfingar þá er lang líklegast að þú sjáir til hans í skýlinu að þruma með drævernum.

Ef hinn almenni kylfingur er spurður að því hversu miklum tíma hann verji af heildar æfingatíma sínum í stutta spilið, þá er svarið líklegast 10-20 prósent. Þetta er þó yfirleitt rangt. Flestir almennir kylfingar eyða um 15 mínútum í að pútta og kannski vippa aðeins áður en hann heldur á 1. teig og þar við situr.

Góðu fréttirnar eru þær að ef þú virkilega vilt sjá breytingu og lækka skorið um 5 högg þá er það hægt. En þú verður að gera róttækar breytingar á því hvernig þú verð æfingatímanum. Þú helgar 90% af æfingatímanum þínum í stutta spilið og bara 10

% í langa spilið í tvær vikur.

Ef þú gerir þetta þá verður 95 að 90 ég ábyrgist þaðJ. Núna sé ég suma fyrir mér kinka kolli og segja, já ég veit þetta. En ég sé þá samt ekki fyrir mér framkvæma þetta.

Líklegast sér maður viðkomandi í skýlinu sveittan eftir að hafa slegið úr heilli fötu með drævernum vegna ánægjunnar sem þessir 4 eða 5 sem voru vel hittir veittu.

Veitum því athygli að 40 högg í röð slegin með dræver eru líkleg til að valda þreytu og síðan slæmum ávönum í kjölfarið.

Bestu afrekskylfingarnir skilja mikilvægi stutta spilsins. Góður afrekskylfingur æfir sveifluna marga klukkutíma á viku, en hann æfir fleygjárnin, vippin og púttin enn meira af því að hann veit að það býr til gott skor. Galdurinn er sá að breyta þremur höggum í tvö.