Vetraræfingar

Nesklúbburinn Almennt

Vetraræfingar kylfinga eru mikilvægar þeim sem vilja lækka forgjöfina. Mikilvægt er að greina þá þætti sem betur mega fara.
Nú eru komin til landsins hjá Gauta Grétarssyni frábær tæki sem hjálpa til við þessa greiningu. Dynamic Balance System er jafnvægismotta sem tengd er við tölvuskjá og sýnir nákvæmlega tilhneigingar hvers og eins, bæði í kyrrstöðu og í sveiflu. Við getum tekið sem dæmi leikmann sem hefur þá tilhneigingu að standa 65% í hæla og 60 % á hægri fæti. Til þess að þessi leikmaður nái að sveifla í góðu jafnvægi þyrfti að ná að jafna út þessa þætti. Það að vera í góðu jafnvægi hefur síðan lykiláhrif á sveifluferil og það hvar við hittum boltann á kylfuhausinn sem síðan hefur lykiláhrif á flug boltans.
K-Vest er síðan vesti sem festir eru á 3 nemar, 2 á hrygg og 1 á úlnlið vinstri handar.  Nemarnir eru þráðlausir og allar líkamshreyfingar birtast nemanda á tölvuskjá jafnóðum.  Þetta er mjög hjálplegt við að greina röð hreyfinga í niðursveiflu sem oft er mjög ábótavant hjá hinum almenna kylfingi. Einnig er tækið mjög nytsamlegt til að færa nemanda í rétta stöðu og endurtaka það síðan með hjálp sýndarveruleikans á tölvuskjánum. Tækið mælir einnig sveifluhraða í gráðum á sekúndu og mismun á snúningi axla og mjaðma í aftursveiflu sem skapar spennuna sem þarf til að ná upp kylfuhraða. Ennfremur er hægt að nota tækið til að kenna rétta höggstöðu.
Ég ætla að bjóða upp á námskeið sem byrjar í næstu viku, miðvikudaginn 9. febrúar. Námskeiðið hefst á því að fyrstu 2 skiptin fara í greiningu í ofangreindum tækjum, greiningin fer fram í húsakynnum Sjúkraþjálfunar Reykjavíkur.
Í framhaldinu verða síðan 3 tímar í Laugardalshöll (vipp og pútt) og 3 tímar í Hraunkoti (langa spilið). Samtals 8 miðvikudagar í röð.
Kennt verður í 5-6 manna hópum. Innifalið í námskeiðsgjaldi er aðstöðugjald, æfingaboltar, jafnvægismælingar ( http://www.sportsbalance.com/usage-in-golf.asp), hreyfimælingar (http://k-vest.com/secondary_golf.php), myndbandsupptaka af sveiflu á háhraðamyndavél og kennslugjald.
Námskeiðið hentar kylfingum af öllum getustigum, verð 28.600.-
Skráning í síma 893-4022 og nokkvigu@gmail.com