Fréttir af vellinum

Nesklúbburinn Tilkynningar

Þrátt fyrir afar erfið veðurskilyrði fyrir golfvelli landsins undanfarið horfa vallarstarfsmenn Nesklúbbsins nú bjartari augum á framhaldið.  Í dag er verið að sá í allar flatir og teiga vallarins og svo í framhaldinu verða þær sandaðar en hvort tveggja eru árlegir og mikilvægir þættir í viðhaldi flata vallarins.

Annars er það helst að frétta af vellinum að undanfarna daga hafa vallarstarfsmenn verið að leggja lokahönd á nýframkvæmdina við 9. braut.  Búið er að fullgera báðar glompurnar með torfhleðslu og setja í þær sand. Í vikunni verður svo tyrft yfir það svæði sem ekki náðist að tyrfa síðastliðið haust.  Vökvunarkerfið í brautinni og við flötina er fullbúið og á þá einungis eftir að grafa fyrir og fullgera glompuna sem kemur sunnan megin við flötina.  Eins og áður er stefnan tekin á að opna inn á flötina í Meistaramótinu.

Kylfingar eru sem áður beðnir um að ganga sérstaklega vel um völlinn þar sem hann er mjög viðkvæmur.  Svo er bara að leggjast á bæn og biðja til þess að veðurguðirnir fari að sýna golfvöllum landsins meiri skilning og umhyggju.