Oddur Óli sigraði á Korpunni

Nesklúbburinn Almennt

Opna Taylormade/Adidas mótið fór fram á Korpúlfsstaðavelli í dag.  Tæplega 170 kylfingar voru skráðir til leiks og þar af 12 úr Nesklúbbnum.  Keppt var í þremur flokkum, höggleik í forgjafarflokki 4,4 og lægra og í punktakeppni karla og kvenna.  Bestum árangri Nesfólksins náði Oddur Óli Jónasson en hann gerði sér lítið fyrir og sigraði í höggleiknum en hann lék á 74 höggum.  Var hann jafn Guðjóni Henning Hilmarssyni úr GKG en samkvæmt reglugerð mótsins voru seinni níu holurnar látnar telja til sigurs í stað bráðabana eins og venjan er í höggleik.  Þar hafði Oddur Óli betur þar sem hann lék á 35 höggum, einu höggi undir pari vallarins, en Guðjón á 40 höggum.  Í viðtali við nkgolf.is eftir hringinn sagði Oddur Óli að byrjunin hafi ekki lofað góðu í dag þar sem hann fékk tvöfaldan skolla á fyrstu tveimur holunum eftir að hafa þrípúttað þær báðar.  Eftir fimm holur var hann kominn 6 högg yfir par en með glæsilegum Erni á sjöundu holu hófst glæsileg spilamennska það sem eftir lifði hrings sem tryggði honum að lokum sigurinn.  Nánar má lesa um úrslit mótsins á golf.is