Gekk í öll hús til styrktar unglingastarfi klúbbsins

Nesklúbburinn Tilkynningar

Á styrktarmóti unglinga sem haldið var í síðustu viku kom gjöfull félagi í klúbbnum, Helgi Þórður Þórðarson, færandi hendi og afhenti 70 þúsund krónur til styrktar unglingastarfi klúbbsins.  Forsagan er þannig að á hverju ári útdeilir umhverfisnefnd Seltjarnarnessbæjar ruslapokum í hvert hús á Seltjarnarnesi í tengslum við hreinsunardag bæjarins.  Að sögn Helga, sem situr í umhverfisnefnd bæjarins, tók hann að sér að bera út slíka poka í hvert einasta hús á Nesinu og fékk fyrir það áðurnefnda upphæð sem hann ánafnar unglingastarfi Nesklúbbsins.  Gangan tók Helga nokkur kvöld en hann sagði það vel þess virði, bæði heilsulega og svo náttúrulega að láta gott af sér leiða fyrir framtíðarkylfinga klúbbsins.  Peningarnir hafa verið eyrnamerktir í sjóð þeirra unglinga sem halda munu í æfingaferð á næsta ári.  Að sögn Helga verður vonandi leitað til unglinga Nesklúbbsins á næsta ári til að útdeila þessum pokum og mun það þá verða liður í fjáröflunstarfi klúbbsins.  Frábært framtak hjá Helga og eru honum hér með færðar bestu þakkir fyrir.