Til að gerast nýliði í Neskúbbsfjölskyldunni þarf að byrja á því að skila inn umsókn í klúbbinn en það er gert hér efst á síðunni undir „umsókn um aðild“. Umsóknir ber að fylla vandlega út í þá reiti sem óskað er eftir. Í Nesklúbbinn er langur biðlisti og eru reglur stjórnar Nesklúbbsins um inntöku nýrra félaga einfaldlega „fyrstur kemur fyrstur fær“. Nýjum félögum er boðin innganga í byrjun hvers árs og miðast fjöldi nýrra félaga við það hversu margir hafa hætt í klúbbnum frá árinu á undan. Reglur um biðlistann og inntöku nýrra félaga má sjá hér á síðunni undir „um NK/útgefið efni/Reglur um biðlista“ eða með því að smella hér.
Nýliðanámskeið
Það er stefna Nesklúbbsins að taka vel á móti nýjum félögum og reyna að undirbúa þá sem best fyrir sín fyrstu skref í golfíþróttinni. Ár hvert er haldið nýliðanámskeið þar sem að nýliðar eru boðaðir og þeim kynntar þær aðstæður sem í boði eru hjá Nesklúbbnum ásamt því að farið er yfir helstu golfreglurnar.
Golfhandbókin
Nýliðum er bent á að lesa handbókina „Golf með skynsemi eykur ánægjuna„. Bókin fjallar um sjálfsagða hluti; öryggisatriði, tillitsemi, snyrtimennsku og góða umgengni. Þetta eru allt einföld atriði en þrátt fyrir það eru siðareglur golfíþróttarinnar allt of oft þverbrotnar.
Með vaxandi fjölda kylfinga og þrengslum á golfvöllum eykst þörfin fyrir það að leika golf með skynsemi. Meiri þörf verður þannig á því að sýna tillitsemi og þolinmæði á golfvöllum. Nauðsyn þess að hraða leik er til þess að sem flestir komist að og bið verði minni. Þá verður enn nauðsynlegra að ganga vel og af hirðusemi um völlinn, laga för eftir uppslegnar torfur og boltaför, raka glompur og nota ruslatunnur. Góð umgengni skilar betri velli og án efa lægri gjöldum. Því er nauðsynlegt að gera átak í þessum efnum. Ef allir leggjast á eitt og fara eftir golfsiðareglum og beita heilbrigðri skynsemi eykur það ánægjuna af golfíþróttinni.