Ferðasaga frá Spáni

Nesklúbburinn Almennt

Laugardaginn 9. apríl hélt 10 manna hópur ungmenna og fararstjóra úr Nesklúbbnum í æfingaferð til Spánar. Nánar tiltekið var haldið til Oasis Plantio í útjaðri Alicante.
Hópurinn hittist í Keflavík og höfðu nokkrir eldri drengjanna sett upp víkingahatta í tilefni þess að þeir voru um það bil að halda í víking. Eftir innritun og smá seinkun hélt járnfuglinn í loftið, eða gámurinn eins og sumir vildu nefna farartækið. Þeir flughræddu töluðu um það að vélbúnaður vélarinnar hafi verið í ólagi og engu líkara en að vélin dræpi á sér inn á milli. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það. Allavega gekk ferðin að óskum og lent var skömmu eftir miðnætti að staðartíma.
Einn af kostunum við þetta svæði er sá að ekki er nema 10 mínútna akstur frá flugvelli og að hótelinu. Fyrir þreytta ferðalanga kom það sér afar vel að þurfa ekki að sitja lengi í sjálfrennireið eftir lýjandi flugferð.
Hótelið lofaði strax góðu og íbúðirnar sem hópurinn fékk til afnota voru einstaklega glæsilegar og þægilegar íveru.
Strax morguninn eftir var síðan blásið til æfingar frá kl. 9-11 og eftir hádegismat var síðan haldið út á völl. Völlurinn virtist við fyrstu kynni vera ansi snúinn en það átti síðan eftir að breytast við nánari kynni. Það hefur líklega haft sín áhrif að sumir þurftu að leika í gallabuxum og lakkskóm á meðan aðrir voru með lánssett eða deildu golfsetti.
Flesta daga var æft fyrir hádegi og svo spilað eftir mat og jafnvel fram í myrkur hjá þeim alhörðustu.  Tvo daga var gefið frí frá æfingum en þá var haldið mót og leiknar 36 holur hvorn daginn. 18 holur á aðalvellinum og 18 holur á par 3 vellinum.
Úrlsit mótsins á aðalvellinum urðu á þann veg að Guðmundur Örn sigraði á 151 höggi (77-74), í öðru sæti varð Garðar Rafn á 167 höggum (89-78) og jöfn í þriðja sæti urðu Kristinn Arnar á 171 (80-91) og Karlotta (78-93). Í flokki atvinnumanna sigraði svo á Nökkvi 142 höggum (73-69).
Á kvöldin styttum við okkur svo stundir með bæjarferðum, áhorfi á Masters, spilum á spil og almennum prakkarastrikum.
Heimkoma var svo viku síðar laugardaginn 16 apríl.Heimferðin var öllu þægilegri þar sem gámnum hafði verið lagt og glæsileg flugvél ferjaði hópinn heim til föðurlandsins.
Er það mat undirritaðs að ferðin hafi heppnast með ágætum þegar allt er til tekið og að flestir hafi verið sjálfum sér og klúbbnum til sóma. Er það von mín að ferðir sem þessar verði gerðar að árlegum viðburði í unglingastarfinu okkar hjá Nesklúbbnum. Við þurfum á því að halda ef við ætlum að ná að stríða stóru klúbbunum.