Formannspistill

Nesklúbburinn Almennt, Póstlistar allir

Kæru félagar,

Nú er farið að líða að lokum þessa golftímabils. Að baki er nokkuð kaflaskipt sumar þar sem við fengum erfitt tíðarfar fyrri partinn í kjölfar einstaklega kalds veturs, en vorum svo verðlaunuð með virkilega góðum síðari hluta. Völlurinn tók þá vel við sér og var orðinn eins og við þekkjum hann bestan.

Ég hef fengið nokkrar ábendingar og kvartanir undanfarið þess efnis að töluvert sé um hópa og þar af leiðandi frátekna rástíma á vellinum og hægt spil. Þetta er vissulega eitthvað sem við erum meðvituð um.  Á þessum tíma árs, þ.e. þegar tekur að hausta minnkar spil félagsmanna töluvert, það hafa tölurnar sýnt okkur.  Við höfum því undanfarin ár talið okkur hafa rými fyrir ákveðinn fjölda hópa því þeir eru okkur gríðarlega mikilvægir, ekki síst þegar kemur að rekstri veitingasölunnar, þar sem þeir mæta nánast hvernig sem viðrar og kaupa veitingar. Þetta er fín lína og við reynum að passa upp á að þetta séu að mestu vanir golfarar og að það verði ekki það mikið að meðlimir upplifi að þeir eigi erfitt með að komast á völlinn. Hóparnir eru jafnmargir á milli ára og þeir eru eins og áður sagði mest í lok tímabilsins. Heilt yfir eru þessir hópar í góðu lagi með tilliti til leikhraða, en ég veit um tilfelli í ár þar sem of hægt var spilað og gleðin helst til of mikil. Það á ekki heima á vellinum og munum við herða reglurnar þannig að við vonum að það endurtaki sig ekki.

Stjórn klúbbsins er þegar farin að huga að verkefnum komandi árs.  Á næstu dögum munum við í samstarfi við Gallup senda út könnun til ykkar félagsmanna og hvet ég ykkur eindregið til að eyða nokkrum mínútum í að svara könnuninni. Hún er nauðsynleg fyrir stjórn og starfsmenn klúbbsins til að fá enn betri tilfinningu fyrir því hvar vel er gert og hvað betur má fara í rekstrinum. Ég veit hvað þið hafið mikinn metnað fyrir Nesklúbbnum og því geri ég mér vonir um að svörunin verði góð. Góðar ábendingar, hugmyndir og skýrar og góðar niðurstöður í svona könnun geta verið gulls ígildi til stefnumótunnar fyrir stjórn klúbbsins.

Nú þegar líður að lokum þessa viðburðaríka golfsumars og allri formlegri dagskrá lokið, er rétt að taka það fram að skálinn og veitingasala verður opin út september.  Þið ykkar sem enn hafið ekki klárað inneignina ykkar í veitingasölunni hafið því þessa daga til að gera það og ég hvet ykkur til þess.  Eins hafa þeir félagar, Mario og Hörður ákveðið að hafa jafnvel opið einhverja daga þegar vel viðrar eitthvað fram í október.  Við munum leika inn á sumarflatir eins lengi og veður leyfir þannig að golftímabilinu er hvergi nærri lokið þó daginn sé vissulega farið að stytta.

Inniaðstaðan okkar á Nesvöllum hefur þegar verið opnuð fyrir æfingar barna og unglinga.  Hún mun svo opna fyrir hinn almenna félagsmann í nóvember.  Byrjað er að taka á móti tímapöntunum fyrir veturinn og hvet ég  ykkur sem áhuga hafið á að nýta ykkur þessa frábæru aðstöðu klúbbsins og tryggja ykkur tíma fyrir veturinn sem fyrst.  Fyrir tímabókanir má senda tölvupóst á netfangið: nesvellir@nkgolf.is

Ég vil að lokum koma því á framfæri að völlurinn er einstaklega viðkvæmur á þessum árstíma og mikilvægt að hann fari vel inn í veturinn og því bið ég ykkur um að ganga sérstaklega vel um og setjum torfurnar í förin og lögum boltaför á flötum, margt smátt gerir eitt stórt!

Með kærri golfkveðju,
Þorsteinn Guðjónsson

formaður