Formannspistill

Nesklúbburinn Almennt, Póstlistar allir

Kæru félagar,

Ég vildi skutla nokkrum línum til ykkar í kjölfar stjórnarfundar sem við héldum í gær.

Meðal þess sem ákveðið var á þeim fundi voru þau verkefni sem eru áætluð á og fyrir tímabilið 2024.  Fyrst má nefna viðgerð á glompum á 8. og 9. braut. Þá er fyrirhugað að setja tröppur við 2., 3. og 4. teig og minnka þannig slysahættu, auk þess sem jarðvegur að aftari 7. teig verður lagaður til að gera aðgengi léttara að honum. Það liggur fyrir að skipta þurfi um rotþró við skálann auk þess sem stækkun á eldhúsinu er óumflýjanleg. Kaupa á flokkunartunnur sem komið verður við skálann.  Stækkun bílastæðisins er í sínum farvegi, en það er erfiðara fyrir okkur að segja nákvæmlega hvenær ráðist verður í það verkefni þar sem það er ekki eingöngu í okkar höndum.

Svo er það mér mjög gleðilegt að segja frá því að búið er að ákveða að koma upp kamri við 4. og 5. holu vallarins fyrir næsta sumar og ég veit að margir segja „loksins“ þegar þeir lesa þetta (ég veit alla vega um tvær).

Eins og þið sjáið er í mörg horn að líta hjá stjórn klúbbsins fyrir næsta tímabil.  Það verður sögulegt ár í sögu klúbbsins, ekki síst í ljósi þess að Nesklúbburinn verður 60 ára og því um stórafmælisár að ræða.  Við stefnum á að gera það sérstaklega eftirminnilegt með ýmsum hætti og verður það allt tilkynnt síðar.  Þess má til gamans geta að Golfklúbbur Ness eða Nesklúbburinn eins og við öllu jafna köllum hann er 5. elsti golfklúbburinn á landinu.

Enn er verið að spila á vellinum sem er í fínu standi og vil ég bara ítreka það hversu mikilvægt það er að ganga vel um völlinn okkar.  Þar er ég að tala um það sem aldrei er og oft sagt, þ.e. setja torfuför í förin og laga boltaför á flötunum þar sem völlurinn sérstaklega viðkvæmur á þessum árstíma.  Við þetta má bæta að Birkir vallarstjóri ætlar að hafa opið inn á sumarflatir eins lengi og veður leyfir að því gefnu að gengið sé extra vel um völlinn með þessu móti.

Nesvellir opna svo 1. nóvember en þegar er farið að taka við bókunum fyrir veturinn. Vonandi koma sem flestir til með að nýta sér þessa frábæru æfingaaðstöðu sem klúbburinn býður upp á.  Hægt er að bóka bæði staka tíma og eins hægt að festa sér reglulega tíma fyrir veturinn eins og margir gera og viðhalda þannig sveiflunni og njóta góðs félagsskapar í leiðinni.  Tekið er við bókunum í gegnum heimasíðu klúbbsins, nkgolf.is,, senda tölvpóst á netfangið: nesvellir@nkgolf.is nú eða einfaldlega hringja í síma 561-1910.  Einnig má við þetta bæta að bæði Guðmundur Örn og Magnús Máni golfkennarar klúbbsins bjóða upp á golfkennslu á Nesvöllum í vetur og er hægt að bóka tíma hjá þeim á netföngin gudmundur@nkgolf.is og magnus@nkgolf.is

Ég vil að lokum hvetja alla til að taka þátt í skoðanakönnuninni sem verður send út frá Gallup síðar í dag eða í síðasta lagi á morgun – þín skoðun skiptir okkur máli.

Með kærri kveðju,

Þorsteinn Guðjónsson
Formaður