Formannspistill

Nesklúbburinn Almennt, Póstlistar allir

Kæru félagar,

Efni þessa pistils snýst að þessu sinni meira og minna um völlinn okkar. Ég vil byrja á því að þakka fyrir mikinn áhuga og góðar umræður á kynningarfundinum vegna breytinganna á vellinum sem haldinn var um daginn. Þeir sem misstu af kynningunni geta horft á hana í gegnum facebook síðu klúbbsins eða með því að smella hér.  Hún verður svo gerð aðgengileg á heimasíðu klúbbsins við fyrsta tækifæri.  Það er mjög mikilvægt að það komi skýrt fram að stjórn klúbbsins lítur á þetta verkefni sem sameiginlegt verkefni allra meðlima því öll hljótum við að vilja fækka hættum á vellinum eins og hægt er.  Við munum því, eins og fram kom í frétt frá okkur í vikunni, taka allar tillögur sem bornar voru upp á fundinum til efnislegrar umræðu á næsta stjórnarfundi og taka svo frekari ákvarðanir í framhaldinu.  Eins viljum við hvetja ykkur til að senda okkur tölvupóst á stjorn@nkgolf.is ef eitthvað er sem ykkur liggur á hjarta varðandi breytinguna á vellinum eða annað sem þið viljið koma á framfæri við stjórn.

Eins og þið sem hafið nú þegar hafið leikið völlinn er 9. brautin tímabundið leikin sem par 3 í núverandi mynd.  Bjarni vallarstjóri og hans vinna nú hörðum höndum að því að byggja upp almennilega teiga fyrir okkur sem gerir brautina enn skemmtilegri.  Eitt atriði sem hefur komið fram, og er mikilvægt, er gangan á milli 8. flatar og 9. teigs.  Til þess að bæði bæta flæðið á vellinum og trufla ekki leik þeirra sem eru að slá á 5. teig ætlum við að reyna að sameinast um að fara alltaf ”gömlu” leiðina.  Það þýðir hægra megin við 8. flötina, upp brekkuna eins og var og fylgja malbikaða stígnum.  Þetta munar nokkrum metrum í göngu en ávinninngurinn er ótvíræður.  Hjálpumst að við að gera þetta að okkar venju.

Á hreinsunardaginn okkar árlega mættu um 80 sjálfboðaliðar úr klúbbnum og unnu ómetanlegt starf. Það er frábært að sjá hversu meðlimir klúbbsins eru viljugir að leggja hönd á plóg til að gera völlinn og klúbbinn okkar betri. Í mínum huga liggur kjarninn þarna að þeim frábæra félagsanda sem ríkir innan Nesklúbbsins.

Völlurinn lítur virkilega vel út miðað við árstíma og það er gaman að sjá mikinn áhuga félagsmanna á að komast út á völl að spila. Við þurfum þó að hafa í huga að þó völlurinn sé orðinn iðagrænn, er sprettan ekki mikil og er því gríðarlega mikilvægt að við göngum extra vel um hann. Ef við viljum spila á fallegum velli í sumar þurfum við að vera meðvituð um að laga torfuför, gera við boltaför á flötum, skilja betur við glompuna en þegar við fórum í hana og hendum ekki rusli, nikotínpúðum eða öðrum hlutum á völlinn.

Að lokum vil ég bara leggja áherslu á að við berum tillit til hvors annars á vellinum og þeirra sem eru á og við völlinn í öðrum erindagjörðum hvort sem það eru menn eða málleysingjar, pössum upp á leikhraða og hleypum þá bara í gegn ef bil hefur myndast fyrir framan þegar einhver er að bíða fyrir aftan.   Ekki undir nokkrum kringumstæðum sláum við í átt að vallarstarfsmönnum – þeir eiga alltaf réttinn. Mikilvægast af öllu er þó að gleyma aldrei gleðinni.

Með golfkveðju,
Þorsteinn Guðjónsson Formaður