Gerum við boltaför á flötunum

Nesklúbburinn Almennt

Nesvellinum hefur sjaldan verið hælt jafn mikið og undanfarna daga vegna ástands hans og umhverfis, enda flestir kylfingar sammála um að völlurinn hafi ekki verið betri í sumar í það minnsta.  Hefur þar margt komið til og fyrir utan mikla og góða vinnu vallarstarfsmanna má þar líka þakka veðratíðinni sem verið hefur undanfarið.  Miklar rigningar undanfarið hafa gefið gríðarlega mikinn og góðan grasvöxt og því hægt að haga slætti á vellinum eftir því.

En því miður hefur þetta ekki allt jákvætt í för með sér.  Aukin bleyta á völlinn þýðir líka mýkri flatir og þar af leiðandi kemur mun meira af boltaförum í þær þegar kylfingar slá bolta sýna inn á flatirnar.  Gamla klisjan um að „gera við boltaför á flötum“ hefur því sjaldan átt jafnvel við og nú.  Það ætti því að vera eindregin ósk og krafa allra meðlima klúbbsins að kylfingar taki sér tak og geri við sín boltaför á flötunum og jafnvel eitt eða tvö til viðbótar svo halda megi vellinum sem lengst í því horfi sem hann er.

Munum að boltafar sem gert er við strax getur verið óséð daginn eftir.  Boltafar sem ekki er gert við innan sólahrings getur skilið eftir sig far í allt að mánuð.

Á meðfylgjandi slóð má sjá hvernig og afhverju við ættum öll að gera við boltaförin okkar: http://www.youtube.com/watch?v=-bFe7xkO0Mw