Hugarþjálfun

Nesklúbburinn Almennt

Veturinn er góður tími til að nýta í hugarþjálfun. Allir kylfingar geta bætt hjá sér hugarfarið og nálgunina á íþróttinni.
Ég hef lesið margar bækur í gegnum tíðina úr þessum málaflokki og yfirleitt tekist að bæta hugarfarijð tímabundið á eftir en með tímanum farið aftur í sama farið. Það er víst með þetta eins og flest annað að maður verður að æfa sig til að verða betri.
Á dögunum var ég staddur á ráðstefnu golfkennara hjá Planetruth samtökum sem ég tilheyri í Bandaríkjunum. Einn daginn vorum við að vinna með stórkylfingnum Tom Pernice Jr. og málefni hugarþjálfunar bar á góma. Hann benti okkur á bók sem skrifuð er af Lanny Bassham margföldum heimsmeistara og ólympíumeistara í riffilskotfimi. En Bassham þessi er hluti af því teymi sem starfar með Tom Pernice.
Ég hef nú lokið við lestur bókarinnar sem heitir With Winning In Mind og óhætt er að segja að ég gef henni mín bestu meðmæli. Það sem Lanny hefur fram yfir marga aðra sem skrifað hafa bækur í þessum málaflokki er að hann hefur sjálfur staðið í eldlínunni og veit því að eigin raun hvað virkar.
Lausnirnar sem boðið er uppá í bókinni eru þó ekki einskorðaðar við íþróttir heldur má nýta þær til að ná betri árangri í starfi, létta sig, hætta að reykja eða skipuleggja fjármálin svo eitthvað sé nefnt.
Bókina er hægt að kaupa á ebay eða amazon fyrir um 12 dollara og heitir hún eins og áður sagði With Winning In Mind.

Gleðileg jól.