Nökkvi sigraði Einvígið á Nesinu

Nesklúbburinn Almennt

Einvígið á Nesinu, hið árlega shoot-out góðgerðarmót sem haldið er af Nesklúbbnum í samstarfi við DHL á Íslandi fór fram á Nesvellinum í dag.  Töluvert rigndi á kylfinga framan af degi en seinni hluta hringsins var blankalogn og frábært veður til golfleiks.  Níu af bestu kylfingum landsins er boðið í mótið en tíundi leikmaðurinn, Nökkvi Gunnarsson, vann sér inn þátttökurétt eftir höggleikinn sem haldinn var í morgun.  Nökkvi sem hélt upp á 35 ára afmæli sitt í dag gaf sér sjálfum afar góða afmælisgjöf í framhaldinu en hann gerði sér lítið fyrir og sigraði í mótinu eftir æsispennandi keppni við Inga Rúnar Gíslason, klúbbmeistara GKJ á síðustu holu.  Þetta var í fyrsta skipti sem Nökkvi sigrar í mótinu og er hann nú kominn í frábæran hóp kylfinga sem sigrað hafa í mótinu undanfarin 15 ár.  Mótið er að vanda góðgerðarmót og er það DHL á Íslandi sem gefur eina milljón króna til góðs málefnis.  Í ár var það Barnaspítalasjóður Hringsins sem naut góðs af og tók Valgerður Einarsdóttir á móti ávísun upp á áðurgreinda upphæð úr höndum Þorsteins Þorsteinssonar fulltrúa DHL í lok mótsins.  Úrslit mótsins urðu annars eftirfarandi:

1. sæti – Nökkvi Gunnarsson, NK

2. sæti – Ingi Rúnar Gíslason, GKJ

3. sæti – Andri Þór Björnsson, GR

4. sæti – Axel Bóasson, GK

5. sæti – Alfreð Brynjar Kristinsson, GKG

6. sæti – Björgvin Sigurbergsson, GK

7. sæti – Tinna Jóhannsdóttir, GK

8. sæti – Karlotta Einarsdóttir, NK

9. sæti – Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR

10. sæti – Birgir Leifur Hafþórsson, GKG

Í höggleiknum sem haldinn var í morgun bar Andri Þór Björnsson sigur úr býtum en hann lék hringinn á 30 höggum eða sex höggum undir pari vallarins.  Glæsilegur árangur hjá Andra sem fékk meðal annars erni á báðar par 5 holur vallarins en hann hafði aldrei stigið fæti inn á Nesvöllinn áður.  Helstu úrslit höggleiksins urðu annars eftirfarandi:

1. sæti – Andri Þór Björnsson, GR – 30 högg

2. sæti – Björgvin Sigurbergsson, GK – 34 högg

3. sæti – Axel Bóasson, GK – 34 högg

Nánari upplýsingar um úrslit höggleiksins má sjá á golf.is