Okkar maður skrifar söguna!

Nesklúbburinn Almennt

Ólafur Björn Loftsson vann frábært og einstakt afrek í dag þegar hann tryggði sér þátttökurétt á Wyndham Championship mótinu á PGA mótaröðinni um næstu helgi með glæsilegum sigri á Cardinal áhugamannamótinu. Ólafur Björn spilaði hringina þrjá á samtals 199 höggum, 11 höggum undir pari og hafði að lokum fjögurra högga sigur eftir æsispennandi lokahring og keppni við Will Collins. Collins var með eins höggs forskot fyrir lokahringinn en spilaði á pari vallar í dag á sama tíma og Ólafur Björn kom inn á 65 höggum, fimm höggum undir pari.

Eins og áður segir tryggði þessi sigur Ólafi Birni þátttökurétt á Wyndham Championship mótinu sem hefst næstkomandi fimmtudag þar sem margir frábærir kylfingar munu mæta til leiks, meðal annarra Ernie Els, Jim Furyk, John Daly, Retief Goosen, Henrik Stenson og Paul Casey. Það verður frábært að fá að fylgjast með okkar manni á meðal þeirra bestu og vonandi aðeins vísir að því sem koma skal.

Viðtal við Ólaf Björn mun birtast á nkgolf.is innan tíðar.

Sjá frétt um afrek Ólafs Björns á mbl.is og kylfingur.is.

Sjá lokastöðuna í mótinu.