Þrír landsliðsmenn koma úr Nesklúbbnum

Nesklúbburinn Almennt, Póstlistar allir

Öldungamótaröð LEK (Landssamband eldri kylfinga) lauk um liðna helgi.  Mótaröð LEK samanstendur af 8 mótum sem leikin eru yfir sumarið ásamt Íslandsmótinu í golfi 50 ára og eldri sem haldið er af Golfsambandi Íslands.  Eftir hvert mót fá svo keppendur stig fyrir sinn árangur í viðkomandi móti og safna þannig upp stigum yfir sumarið.  Þeir kylfingar sem safna sér inn flestum stigum yfir sumarið og ná þannig bestum árangri eru krýndir stigameistarar LEK viðkomandi árs í bæði karla- og kvennaflokki.  Það sem meira er, að stigalistinn úrskurðar einnig til um það hverjir komast í landslið Íslands í flokkum 50 ára og eldri fyrir komandi ár.  Svo skemmtilega vill til að í ár voru þrír kylfingar úr Nesklúbbnum sem unnu sér rétt til landsliðs.  Þeir eru Gunnar Gíslason og Gauti Grétarsson sem unnu sig inn í landsliðið í flokki 55 ára og eldri og svo Eggert Eggertsson sem vann sig inn í landsliðið í flokki 65 ára og eldri. Sannarlega frábær árangur hjá þeim félögum og óskum við þeim innilega til hamingju með árangurinn.