Vetrarstarfið komið á fullt

Nesklúbburinn Almennt

Vetrarstarfið komið á fullt

Þá er unglingastarfið komið á fullt. Afrekshópar eru 2, skipaðir af samtals 11 einstaklingum. Hvor hópur um sig æfir 4 sinnum í viku þar til í byrjun maí. Almennir æfingahópar, strákahópur og stelpuhópur æfa síðan hvor um sig tvisvar í viku. Þessir hópar eru opnir öllum félögum 20 ára og yngri.

Á síðasta ári voru 53 börn og unglingar sem sóttu á einhverjum tímapunkti skipulagðar æfingar og eru þá ótalin golfleikjanámskeiðin sem opin voru öllum. Af þessum 53 má segja að um 35 til 40 hafi verið virkir. Í ár er stefnan sett á að fjölga í þessum hópi og vonandi náum við að virkja sem flesta. Það sem helst stendur okkur fyrir þrifum er að við þurfum að sækja æfingaaðstöðuna í önnur bæjarfélög yfir vetrartímann.  Við búum því miður ekki eins vel og margir aðrir klúbbar sem fengið hafa aðstöðu til afnota frá sínum bæjarfélögum. Ég trúi ekki öðru en að á þessu verði ráðin bót fyrir næsta ár, Seltjarnarnesbær getur varla verið þekktur fyrir annað.

Æfingaáætlun vetrarins er þannig byggð upp að nú þegar er fyrirfram ákveðið hvað gert verður á hverri æfingu fyrir sig. Með þessu móti náum við að tryggja að með góðri æfingasókn öðlast iðkendur góðan grunn og skilning á líkamsstöðum, gripinu, hreyfingum, áhrifavöldum boltaflugs, leikskipulagi og mörgu öðru.

Hjá afrekshópunum er síðan að auki lögð áhersla á jafnvægi, liðleika, styrk, samhæfingu hreyfinga og úthald. Þetta gerum við með golfleikfimi og badminton æfingum.

Mig langar að deila því með ykkur nú í vetur hvernig æfingarnar eru settar upp. Þetta ætti að geta gefið ykkur hinum almennu félögum sem viljið æfa vel í vetur hugmyndir og vonandi aukna þekkingu.

Í vikunni sem leið voru þemurnar eftirfarandi: Í Hraunkoti „gripið og áhrif þess, uppstilling og mið“.  Í Laugardalshöll „pútt, stefnustjórnun. Unnið með áhrifavalda“.

Hver æfing stendur yfir í klukkutíma.  Hraunkotsæfingin byrjaði með upphitun í 10 mínútur, líkamsæfingar og teygjur. Þemu æfingar voru eftirfarandi:

  • Fætur undir öxlum.  Slegið með 7 járni á skotmark og lögð áhersla á að bil milli fóta sé hæfileg. Sé það of mikið er líklegt að erfitt verði að snúa í gegn og klára sveiflu. Sé það of lítið er hætt við að erfitt verði að halda góðu jafnvægi.
  • Boltastaða. Áfram er slegið á skotmark með 7 járni. Áhersla lögð á að boltastaðan sé rétt framan við miðju. Gott er að leggja niður kylfu á milli fótanna. Fyrir rétthentan kylfing örlítið nær vinstri hælnum en þeim hægri. Með þessu móti er líklegt að við náum að hitta boltann rétt áður en kylfan nær lægsta punkti í sveiflunni, að því gefnu að þungaflutningur röð hreyfinga sé í þokkalegu lagi.
  • Jafnvægi. Gott jafnvægi er einn af mikilvægustu þáttum í góðri golfsveiflu. Til þess að auka möguleikann á góðu jafnvægi í gegnum sveifluna þarf það að vera gott í upphafsstöðu. Líkamsþunginn ætti að dreifast jafnt frá tábergi og aftur í hæla.  Ýmsir þættir í uppstillingunni hafa áhrif á jafnvægið, stöndum við of upprétt? (hjá flestum ætti vinkillinn á bakinu að vera 35-38 gráður) Of bogin? Eru hnéin of mikið bogin eða of upprétt? (til að vera í sem bestu jafnvægi ættu hnéin að vera í beinni línu yfir tábergi). Í sveiflunni viljum við síðan finna að þunginn sé á innanverðum hægra fæti við lok aftursveiflu og um það bil jafn mikið við táberg eins og við hæl. Í höggstöðu reynum við að hafa þungann á innanverðum vinstra fæti og höldum síðan lokastöðunni þar til boltinn lendir.
  • Mið. Við sláum áfram með 7 járni. Setjum niður tvær kylfur. Önnur vísar á skotmark, kylfuhausinn ætti að liggja þvert á þessa kylfu. Hina kylfuna leggjum við síðan niður við fætur, samsíða hinni, vinstra megin við skotmark. Fætur, hné, mjaðmir og axlir vísa samsíða þeirri kylfu. Það er algengur misskilningur að líkaminn eigi að vísa á skotmarkið, það viljum við koma í veg fyrir.
  • Gripið og áhrif þess. Sterkt grip, veikt grip, hlutlaust grip. Farið í gegnum áhrif þess á boltaflugið og prófað.  Sjá nánar http://betragolf.is/blog/record/451985/

 

Æfing í Laugardalshöll (pútt, stefnustjórnun):

  • Mið. Dave Pelz Putting Tutor. http://www.pelzgolf.com/dave_pelz_golf_pro_shop/golf_putting_aid_putting_tutor.aspx Hér æfum við okkur í því að miða kylfuhausnum á þá línu sem við viljum að boltinn rúlli eftir.
  • Sweetspot. Vefjum 2 teygjur utan um púttershausinn, höfum bilið á milli teygjanna um boltabreidd. Reynum svo að pútta án þess að boltinn snerti teygjurnar.
  • Stefna kylfuhauss. Hér púttum við af 1, 2, og 3m færi í tí. Reynum að átta okkur á því hvort það sé eitthvað mynstur í gangi, hægri, vinstri?
  • Krossinn. Kylfulengd frá holu. Reyna að ná sem flestum púttum í röð niður af 3 feta færi frá 4 mismunandi stöðum umhverfis holuna.
  • Ferilsæfing. Hér stillum við upp tveimur kylfum sitthvoru megin við púttershausinn, u.þ.b. 1 cm hvoru megin. Púttum síðan af um 1 m færi og reynum að rekast ekki utan í.

Með þessum æfingum náum við að koma inn á alla helstu áhrifavalda í stefnustjórnun: stefna kylfuhauss, ferill, sweetspot og lega kylfuhauss.

 

Með kveðju, Nökkvi