Nesklúbburinn er stoltur af því að vera Fyrirmyndarfélag ÍSÍ. Að vera Fyrirmyndarfélag ÍSÍ er gæðaviðurkenning á íþróttastarfi klúbbsins og felur í sér að Nesklúbburinn hefur staðist þær gæðakröfur sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands setur. Til þess að standast slíkar kröfur þurfa íþróttafélög að sýna það í verki að það geri raunhæfar kröfur um gæði og innihald þess starfs sem það vinnur. Síðustu ár hefur klúbburinn lagt mikla vinnu í að byggja upp öflugt barna- og unglingastarf og hefur iðkendafjöldi klúbbsins í barna- og unglingastarfinu margfaldast í kjölfarið. Með auknum iðkendafjölda var ákveðið að yfirfara starfið í heild og stefna að því að starfið myndi standast þær gæðakröfur sem ÍSÍ gerir til Fyrirmyndarfélaga ÍSÍ. Stjórn klúbbsins og starfsmenn munu leggja sitt af mörkum á komandi árum til að sýna öllum meðlimum klúbbsins og iðkendum í verki að Nesklúbburinn stendur undir þeirri viðurkenningu að kallast Fyrirmyndarfélag ÍSÍ. Við ætlum okkur að vera lýðheilsu afl á Seltjarnarnesi á komandi árum og sinna kylfingum okkar á öllum aldri eftir bestu getu og er gæðastimpill þessi á starf klúbbsins mikilvægur liður á þeirri vegferð.
Á aðalfundi Golfklúbbs Ness – Nesklúbbsins 25. nóvember 2021 afhenti Ragnhildur Skúladóttir sviðsstjóri Þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ klúbbnum gæðaviðurkenningu vegna barna- og unglingastarfs og um leið réttinn til að kalla sig Fyrirmyndafélag ÍSÍ.
Hér að neðan má sjá handbók þá er unnin var til að öðlast viðurkenninguna og um leið þau skilyrði sem klúbburinn skuldbindur sig til að vinna eftir.